fristundalaesi@gmail.com

Náttúru og umhverfislæsi – Dýraklúbbur

Dýraklúbbur

Fjölmörg dýr eru til í heiminum. Í dýraklúbb eru skoðuð íslensk dýr, sjávardýr, dýr í útrýmingarhættu og svo framvegis. Ýmsan fróðleik má finna á síðunni Íslensk húsdýr um dýr sem kynna mætti fyrir börnunum, eins og sögusagnir um ketti, hvers vegna geitur hoppa og hvaða nyt voru af hönum í gamla daga. 

f

Leiðbeiningar:

Í upphafi kynnir frístundaleiðbeinandinn/ráðgjafinn fyrir börnunum tiltekin dýr. Mikilvægt er að hafa fjölbreytt efni um dýrin fyrir börnin til að skoða, bækur, vefsíður, myndir og myndbönd. Þá getur verið gaman fyrir þau að skoða efni um áhugaverð dýr bæði hérlendis og erlendis.

Því næst er dreift ólíkum efnivið og geta börnin föndrað, teiknað eða litað allskonar dýr. Síðan væri hægt að setja verkin frá börnunum á veggspjald ásamt fróðlegum upplýsingum um dýrin til hliðar. Gott er að nýta tækifærið á meðan börnin eru að vinna í verkunum sínum og ræða við þau um dýrin, hvar þau búa, hvað þau borða og segja þeim sögur um dýrin.

Á Leikjavefnum má einnig finna skemmtilegan spurningaleik um dýr og aðra fjölbreytta leiki sem tengjast dýrum. Einnig eru til allskonar skemmtileg dýraspil eins og Fuglafár eða sýndarveruleika dýraspilið sem hægt er að fá lánað hjá Búnaðarbanka Mixtúru sem er margmiðlunarver Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

Auk þess væri gaman fyrir börnin að fara í heimsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn þar sem er að finna dýragarð, vísindaveröld, sjávardýrasafn og margt fleira spennandi.

Í lokin geta börnin sungið saman ólíkar og skemmtilegar vísur um dýrin. Siggi var úti, Úr Vísunum um kindina og Þjóðvísa eru nokkrar af þeim mörgu vísum sem tengjast dýrunum okkar. Þá mætti hvetja börnin til að semja sínar eigin vísur um þau dýr sem eru í uppáhaldi hjá þeim.

Aldursviðmið: Allir

Stærð hóps: Litlir eða meðalstórir hópar

Undirbúningur: Gott er að kynna sér fjölbreytt dýr og er tilvalið að fjalla sérstaklega um ákveðin dýr í hverjum klúbb.

Áhöld: Blöð og litir. Bækur og vefsíður um dýr. Spjaldtölva eftir þörfum

Rými: Stórt hljóðlátt rými