fristundalaesi@gmail.com

Leiðbeiningar

Leiðbeiningar

Heimasíða þessi er hugsuð sem hugmyndabanki sem auðvelt er að byggja á og notar bæði Starfsskrá Skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Menntastefnu Reykjavíkurborgar til hliðsjónar. Hér er ekki settur fram tæmandi listi af hugmyndum um hvernig efling máls og læsis getur farið fram á frístundaheimilum heldur bent á ýmsar hugmyndir sem hvert og eitt frístundaheimili getur tileinkað sér eða lagað að sínum þörfum. Heimasíðunni hefur verið skipt í þær sjö tegundir læsis sem frístundaheimili vinna hvað mest með að undanskildu hefðbundnu læsi sem tvinnað hefur verið inn í þær. Þessar tegundir læsis eru; félagslæsi, lista- og menningarlæsi, miðlalæsi, samfélagslæsi, vísindalæsi, náttúru- og umhverfislæsi og heilsulæsi. Á heimasíðunni er að finna stutta umfjöllun um hverja tegund læsis fyrir sig, hugmyndir sem hægt er að framkvæma í almennu starfi og hugmyndir að klúbbastarfi. Einnig er sagt frá fyrirmyndarklúbbum sem eru starfræktir í borginni, spennandi þemadögum, uppbyggilegum smáforritum og ítarefni. 



Læsisumfjöllun

Hver upphafssíða inniheldur fræðitexta sem fjallar um hverja tegund læsis, þar sem hún er skilgreind og sett í samhengi við frístundastarf. Einnig er stiklað á stóru varðandi það hvers vegna tiltekið læsi er mikilvægt fyrir börn og hvernig það eflir ýmsa hæfileika. Neðst á hverri upphafssíðu er fjallað um þrjú smá skref sem eru nokkuð einföld í sniðum og eiga það sameigninlegt að þurfa takmarkaðan undirbúning og taka stuttan tíma í framkvæmd. Á hverri upphafssíðu er jafnframt hægt að finna fjóra hnappa sem snúa að ólíkum leiðum sem má nota til þess að efla mál og læsi barna. Þeir eru; almennt starf, klúbbastarf, þemadagar og smáforrit.

Almennt starf

Hver læsistegund inniheldur hugmyndir sem framkvæma má í almennu starfi. Þegar fjallað er um almennt starf er átt við allt það starf sem fer fram á frístundaheimilum að undanskildu skipulögðu klúbbastarfi. Í hverri læsistegund eru lagðar fram ýmsar ólíkar hugmyndir um hvernig hægt sé að efla tiltekið læsi í almennu starfi. 

Klúbbastarf

Hver læsistegund inniheldur hugmyndir af klúbbastarfi. Með klúbbastarfi er átt við skipulagt starf þar sem börnin velja sér ákveðinn klúbb eða dægrastyttingu sem þau vilja taka sér fyrir hendur á degi hverjum. Í hverri læsistegund eru lagðar til ólíkar hugmyndir að klúbbum sem snúa að tilteknu læsi. Þó hugmyndir séu settar fram skref fyrir skref er kjörið að aðlaga klúbbana eftir áhugasviði starfsfólks og getu og þörfum barnanna. Nánar


Fyrirmyndarklúbbar

Hver læsistegund inniheldur stutta umfjöllun um þá fyrirmyndarklúbba sem fela í sér eflingu máls og læsis og eru starfandi á hinum ýmsu frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Klúbbarnir tengjast því tiltekna læsi sem er til umfjöllunar í hverri læsistegund fyrir sig. Þeir eiga það sameiginlegt að vera áhugaverðir, óhefðbundnir og höfða vel til barna. 

Þemadagar

Hver læsistegund inniheldur stutta umfjöllun um þemadaga. Þegar fjallað er um þemadaga er bæði átt við heila daga á frístundaheimilum og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur. Hér eru lagðar fram ýmsar ólíkar hugmyndir að áhugaverðum þemadögum sem efla tiltekið læsi.

Áhugaverðir hlekkir

Í hverri læsistegund er bent á frekara ítarefni sem hægt er að skoða. Ítarefnið getur verið fjölbreytt og er tilvalin uppspretta að nýjum hugmyndum. Bent er á heimasíður, veggmyndir, fræðslu og fleira skemmtilegt. 


Smáforrit

Í hverri læsistegund eru tillögur að fjölbreyttum smáforritum sem hægt er að nota til eflingar máls og læsis innan frístundaheimila. Smáforritin eru valin með það í huga að börnin geti notað þau í misstórum hópum og er lögð áhersla á að þau séu ekki hugsuð sem einstaklingsverkefni. Mörg frístundaheimili hafa verið treg til að nota smáforrit í starfi sínu og ekki að ástæðulausu. Sum börn eyða umtalsverðum tíma fyrir framan skjái daglega og því tilefni til varkárni. Frístundaheimili er kjörinn vettvangur til þess að leiðbeina börnum um notkun smáforrita á uppbyggilegan hátt. Sum börn hafa ef til vill takmarkað aðgengi að slíkum tækjum og getur því notkun þeirra á frístundaheimilum verið þeim mikilvæg. Ráðlegt er að stilla notkun smáforrita í hóf og er til dæmis hægt að takmarka notkun barna við eitt ákveðið forrit og stilla tímaþak á notkunina. Jafnframt geta mörg þeirra smáforrita sem finna má á heimasíðunni nýst frístundaleiðbeinendum/ráðgjöfum við hugmyndaöflun eða undirbúning og frágang verkefna án þess að börnin fái aðgang að tækjum í klúbbastarfinu.