fristundalaesi@gmail.com

Samfélagslæsi

Samfélagslæsi

Börn eru virkir þátttakendur í því fjölmenningarlega samfélagi sem við búum í hér á landi. Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga öll börn óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungumáli, trú, stjórnmálaskoðunum, ætterni, fötlun, félagslegri stöðu eða öðrum aðstæðum að geta haft áhrif á öll mál er varðar þau. Ætlast er til þess að fullorðnir hlusti á börnin og taki réttmætt tillit til óska þeirra og langana í samræmi við aldur og þroska¹. Þýðingamikið er að hvetja börn til þess að nýta sinn eigin sköpunarkraft, beita gagnrýnni hugsun og koma með sjálfstæðar ályktanir. Mikilvægt er að búa börn undir að taka þátt í lýðræði með því að efla lýðræðisvitund þeirra. Æskilegt er að leggja áherslu á að börn fái tækifæri til að leika og læra í ólíkum hópum, læri að leysa ágreining á eigin forsendum og vinna að sameiginlegum lausnum². Frístundaheimilum ber jafnframt að kynna börnum menningu annarra landa til þess að þau öðlist skilning á því alheimssamfélagi sem við búum í og læri að fagna fjölbreytileikanum.

Hvað er verið að efla? Lýðræðisvitund, aðlögunarhæfni, tillitsemi og gagnrýna hugsun

ff

ff

Smáskref

Heimskort

Heimurinn er gríðastór og agnarsmár bæði í senn. Gaman er að hafa heimskort sýnilegt þar sem börn jafn sem fullorðnir geta velt fyrir sér umhverfi sínu. Ef áhugi er fyrir hendi geta börn og fullorðnir merkt inn staði sem hafa þýðingu fyrir viðkomandi.

Hugmyndakassi

Hugmyndakassar geta verið óþrjótandi uppspretta nýrra og spennandi hugmynda. Auðvelt og einfalt er að koma upp slíkum kassa þar sem börnin fá tækifæri til að hafa áhrif á starf frístundaheimilisins. Til þess að kassinn uppfylli hlutverk sitt er mikilvægt að minna börnin reglulega á hann og sýna þeim hvernig hugmyndir úr kassanum verða að veruleika.

Orðskýringar

Gaman getur verið í fjölmenningarlegu starfsumhverfi, eins og frístundaheimili eru oft á tíðum, að setja upp töflu í rými starfsfólks þar sem starfsmenn geta hjálpast að við að skrifa niður áhugaverð íslensk orð sem koma upp í leik og starfi, hvað þau þýða og í hvaða samhengi þau eru notuð. Slík tafla aðstoðar ekki einungis erlenda starfsmenn að læra ný og skemmtileg orð heldur  getur hún einnig vakið áhuga íslenskra starfsmanna á tungumáli sínu og málhefðum.