fristundalaesi@gmail.com

Félagslæsi – Stuðboltaklúbbur

Stuðboltaklúbbur

Þessi klúbbur byggir á handbókinni Stuðboltar sem er þróunarverkefni frístundaheimilisins Eldflaugarinnar. Bókin er hjálpartæki fyrir starfsfólk á frístundasviði sem vinnur með börnum sem glíma við miklar áhyggjur. Þar má finna leiðbeiningar um hvernig hægt sé að styrkja sjálfsmynd, efla félagsfærni barna og gefa þeim öruggan vettvang til að tjá sig. Í klúbbnum eru tilfinningar ræddar, unnin verkefni og farið í skemmtilega leiki.

f

Leiðbeiningar:

Mikilvægt er að hver Stuðboltaklúbbur sé svipaður til þess að koma í veg fyrir auknar áhyggjur og óvissu um hvað koma skuli í klúbbnum. Gott er að fara sjónrænt yfir skipulag klúbbsins hverju sinni og fara yfir samskiptareglur þannig að öllum líði vel. Einnig skiptir miklu máli að frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi bjóði börnin velkomin.

Í fyrsta skiptið sem klúbburinn er haldinn fá börnin tækifæri til að semja samskiptareglur Stuðboltaklúbbsins undir handleiðslu frístundaleiðbeinanda/ráðgjafa. Þá getur verið nauðsynlegt að minna börnin á reglurnar þegar lengra er liðið á klúbbinn og sérstaklega ef þess er þörf. 

Flestir Stuðboltaklúbbar byggja á lestri eins kafla úr bókinni Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? Eftir upplesturinn eða á meðan á honum stendur vinna börnin verkefni úr kaflanum og taka þátt í umræðum um efni kaflans ásamt því að rifja upp efni síðasta klúbbs. Síðan fá börnin tækifæri á að fara í skemmtilega leiki sem efla félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og æfa framsögn. 

Allir Stuðboltaklúbbar enda á hróshring. Börnin setjast í hring og hrósa því barni sem situr þeim næst og þannig heldur hringurinn áfram koll af kolli þar til búið er að fara allan hringinn. Börnin ráða því hvort þau tala upphátt eða hvísla.

Í lok klúbbsins fer frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi stuttlega yfir það sem fram fór og hrósar börnunum fyrir það sem gekk vel og kveður hvern og einn með handabandi og augnsambandi.


Aldursviðmið: Allir

Stærð hóps: Litlir eða meðalstórir hópar

Undirbúningur: Nauðsynlegt er að hafa kynnt sér handbókina Stuðboltar og bókina Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? Einnig er gott að fara yfir leikreglur á þeim leikjum sem farið verður í hverju sinni

Áhöld: Handbókin Stuðboltar og bókin Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur? Blöð, blýantar, litir og gögn sem á þarf að halda í hverjum leik

Rými: Hljóðlátt rými