fristundalaesi@gmail.com

Frístundalæsi

Frístundalæsi

Í Reykjavíkurborg verja flest sex til níu ára börn miklum tíma á frístundaheimilum eftir að hefðbundnum skóladegi þeirra lýkur. Þátttaka í starfinu hefur aukist undanfarin ár og er því mikilvægt að nýta þann tíma vel. Skiptir máli að börnin njóti viðveru sinnar á frístundaheimilum og að starfsemin sé margvísleg svo að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Á frístundaheimilum borgarinnar er unnið fjölbreytt starf allan ársins hring í íslensku málumhverfi. Í gegnum leik og starf vinna þau að eflingu máls og læsis sem er rauður þráður í öllu starfi sem þar fer fram. Það má því færa rök fyrir því að lykilhugtök máls¹ og læsis² séu stór hluti af öllu frístundastarfi og að þeir þættir sem hugtökin vísa til séu stöðugt í notkun og eflingu.

Góð þekking á íslensku er einn helsti grunnþáttur þess að börn verði að virkum þegnum í íslensku samfélagi og fái tækifæri í námi, leik og starfi. Því miður sýna rannsóknir að afturfarir hafa orðið í lesskilningi barna síðustu ár á Íslandi³ og því hefur verið lögð aukin áhersla á eflingu þess innan allra skólastiga4. Minni áhersla hefur verið lögð á markvissa eflingu máls og læsis innan frístundaheimila en með þessari heimasíðu verður vonandi breyting þar á5

Algengast er að læsi sé sett í samhengi við lestur á prentmáli, þ.e. að skilja ritaðan texta og geta fært hugsun sína yfir í ritað mál6. Hugtakið læsi í víðum skilningi er aftur á móti talin vera úrvinnsla þess sem við sjáum og skynjum7. Læsi er því notað yfir alla þá þekkingu, skilning og hugsun sem á sér stað til þess að öðlast færni á öllum sviðum samfélagsins. Góð móðurmálsþekking ásamt hæfni til þess að lesa umhverfi sitt eru grundvallaratriði virkrar þátttöku í lýðræðisríki og mikilvægur þáttur í þroska hvers einstaklings.  

Til þess að efla mál og læsi barna er mikilvægt að skapa aðstæður þar sem börn fá tækifæri til að efla færni sína í samskiptum við jafnaldra, rökræða og gagnrýna. Frítími er mikilvægur í þessu samhengi. Þegar börn nota frítíma sinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt getur það aukið lífsgæði þeirra og framtíðarmöguleika8.

Frístundalæsi leggur áherslu á reynslunám barna og að virkja þau til þátttöku með áhugahvatningu. Félagsleg hugsmíðahyggja og að læra í gegnum leik er einnig leiðarljós Frístundalæsis þar sem þekkingarsköpun á sér stað með leik og í samskiptum við aðra. 

Heimasíða þessi er meðal annars rituð á grunni rannsóknar og handbókar sem höfundar gerðu sumarið 2018 með styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna Rannís.