Almennt starf
Hugmyndir sem framkvæma má í almennu starfi til eflingar á miðlalæsi á frístundaheimilinu. Þegar fjallað er um almennt starf er átt við allt það starf sem fer fram á frístundaheimilum að undanskildu skipulögðu klúbbastarfi.
Bók mánaðarins
Frístundaheimili er tilvalinn vettvangur til þess að kynna fyrir börnum skemmtilegar og áhugaverðar bækur á fjölbreyttan hátt. Sniðugt er að velja bók mánaðarins og hafa hana aðgengilega fyrir börnin.
Hægt er að útbúa veggspjald þar sem bókinni er lýst í stuttu máli í orði og mynd og veggspjaldið síðan hengt upp í lestrarhorni. Þegar börnin hafa kynnt sér bókina er hægt að leyfa þeim að gefa henni stjörnur eða jafnvel stutta umsögn sem hægt er að líma á veggspjaldið.
Ljóð mánaðarins
Gaman er að velja ljóð mánaðarins og hafa það sýnilegt innan frístundaheimilisins. Börnin geta þá skrifað upp ljóðið sem varð fyrir valinu með aðstoð starfsfólks. Í kjölfarið er hægt að teikna myndir sem hægt er að klippa út og líma á veggspjaldið til myndskreytinga. Til eru fjölmörg ljóð fyrir börn sem eru samin af börnum og/eða fullorðnum. Að sjálfsögðu er einnig hægt að velja ljóð eftir börn frístundaheimilisins.
Frétt vikunnar
Á tímum ljósavakamiðla er gífulegt magn af fréttum daglegt brauð þeirra eldri. Gott getur verið að kynna börnin fyrir fréttum af málefnum þeim viðkomandi. Hægt er að velja frétt vikunnar inn á barnafréttamiðlum eins ogKrakkaRúv og hengja hana upp svo börnin geti velt fyrir sér efni fréttarinnar.