Fréttamannaklúbburinn
Börnum í frístundaheimilinu Selinu er veitt tækifæri til að spreyta sig á öllu því sem viðkemur útgáfu fréttablaðs í Fréttamannaklúbb.
Til að byrja með kynnir starfsfólk fyrir börnunum hvernig blað er byggt upp og þau búa svo til blað í sameiningu. Börnin taka til að mynda viðtöl við önnur börn og starfsfólk frístundaheimilisins, gera einfalda skoðanakönnun, skrifa stutta pistla, stunda rannsóknarvinnu og taka ljósmyndir. Við þessa vinnu nota þau hljóðnema til að taka upp viðtöl og myndavél til þess að taka ljósmyndir.
Í lokin gefa þau út blað sem gengur undir nafninu Selsblaðið og fá öll börn frístundaheimilisins eintak af því. Einnig halda þau úti bloggsíðu þar sem viðtölin, listaverkin og greinarnar eru birtar.