fristundalaesi@gmail.com

Vísindalæsi – Spæjaraklúbbur

Spæjaraklúbbur

Á nokkrum frístundaheimilum Miðbergs er Spæjaraklúbbur. Þar fá börnin tækifæri til að gerast rannsóknarmenn. Þau búa til sín eigin nafnspjöld og leysa ráðgátur sem starfsfólk frístundaheimilisins hefur búið til fyrir þau. Ráðgátan felur oft í sér dulmál sem börnin þurfa að ráða og það leiðir þau áfram á næstu staði. 

f

Leiðbeiningar:

Byrja þarf á að útbúa ráðgátu sem börnin geta hjálpast að við að leysa. Því næst þarf að ákveða þær þrautir sem börnin eiga að gera á hverjum stað og að lokum eru fundnir dulmálslyklar.

Til eru allskonar skemmtilegir dulmálslyklar sem nota má til að leiða börnin áfram í rannsóknarstörfum sínum. Dulmálslyklarnir geta verið sáraeinfaldir, eins og til dæmis dulmálslykill þar sem hver tölustafur táknar tiltekinn bókstaf, 1 er A, 2 er Á og 3 er B. Einnig er hægt að búa til dulmálslykill þar sem ein mynd eða tákn standur fyrir hvern bókstaf, dúfa er D, kerti er K og stjarna er S. 

Mikilvægt er að frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi gefi sér góðan tíma í að útskýra fyrirkomulag Spæjaraklúbbsins vel fyrir börnunum og aðstoði þau við að leysa ráðgátuna og þrautir eftir þörfum.

Við rannsóknarstörfin gæti áttavitinn í smáforritinu Spyglass komið að góðum notum. 
Einstaklega skemmtilegt er að gera Spæjaraklúbb í samráði við annað frístundaheimili eða leikskóla í hverfinu. Þá geta börnin endað þar og fengið að kíkja í heimsókn á nýjan stað og jafnvel farið í einn hópleik saman. Marga fjölbreytta hópleiki er að finna á Leikjavefnum.

Aldursviðmið: Allir

Stærð hóps: Litlir eða meðalstórir hópar

Undirbúningur: Tilvalið er að finna eða búa til nýjan dulmálslykil. Útbúa þrautir og ákveða ráðgátuna

Áhöld: Blöð og blýanta, stækkunargler, dulmálslykill og spjaldtölva eftir þörfum

Rými: Ólík rými og útisvæði


Áhugaverðir hlekkir:

Dulmálslykill

Dularfullu dulmálsbréfin (Sjá eyðublað 4. á bls 20)

Hópleikir

Smáforrit:

Spyglass er áttaviti sem nýtir myndavélina í snjalltækinu. Þegar kveikt er á myndavélinni sést áttavitinn á skjánum en jafnframt það sem er fyrir framan tækið.