Læsistegund
Samfélagslæsi
Börn eru virkir þátttakendur í því fjölmenningarlega samfélagi sem við búum í hér á landi.
Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga öll börn óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungumáli, trú, stjórnmálaskoðunum, ætterni, fötlun, félagslegri stöðu eða öðrum aðstæðum að geta haft áhrif á öll mál er varðar þau. Ætlast er til þess að fullorðnir hlusti á börnin og taki réttmætt tillit til óska þeirra og langana í samræmi við aldur og þroska.
Þýðingamikið er að hvetja börn til þess að nýta sinn eigin sköpunarkraft, beita gagnrýnni hugsun og koma með sjálfstæðar ályktanir. Mikilvægt er að búa börn undir að taka þátt í lýðræði með því að efla lýðræðisvitund þeirra.
Æskilegt er að leggja áherslu á að börn fái tækifæri til að leika og læra í ólíkum hópum, læri að leysa ágreining á eigin forsendum og vinna að sameiginlegum lausnum. Frístundaheimilum ber jafnframt að kynna börnum menningu annarra landa til þess að þau öðlist skilning á því alheimssamfélagi sem við búum í og læri að fagna fjölbreytileikanum.