fristundalaesi@gmail.com

Vísindalæsi – Vélmennaklúbbur

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Vélmennaklúbbur

Róbótar í mannslíki geta verið flókin fyrirbæri. Í Vélmennaklúbb er reynt að virkja sköpunargleði barna þar sem þau fá tækifæri til að smíða vélmenni frá grunni. Til að stjórna vélmenninu þarf oftast tölvu og hugbúnað því það þarf að knýja tiltekna líkamsparta til hreyfingar eins og hendur og fætur. Einnig er hægt að búa til einfaldari róbóta í klúbbnum og jafnvel föndra þá úr tölvuafgöngum.

f

Leiðbeiningar:

Gott er að byrja Vélmennaklúbb á því að fá börnin til að setjast í hring og ræða við þau um áhrif tækninnar á líf þeirra. Því næst er kynnt fyrir þeim fjölbreyttir róbótar og vélmenni. Allskonar efni er til um það á netinu og því hægt að sýna þeim bæði myndir og myndbönd á meðan fyrirbærin eru útskýrð fyrir þeim.

Skemmtilegt er að skapa og föndra vélmenni úr allskonar tölvuafgöngum eða úr hreinu rusli. Þannig má búa til allar stærðir og gerðir af fjölbreyttum og litskrúðugum vélmennum, eins og dósavélmenni, eggjabakkavélmenni, pappakassavélmenni eða vélmennabúning.

Einnig er hægt að fylgja leiðbeiningum og búa til vélmenni sem getur hreyft sig sjálft eins og til dæmis Bursta vélmenni.

Ef frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi treystir sér til er hægt að nota forrituð vélmenni. Mixtúra er með nokkur vélmenni sem frístundaheimili geta fengið að láni í gegnum Búnaðarbankann. Þau tengjast ólíkum hugbúnaði sem sett eru upp í tölvum eða snjalltækjum. Robo Wunderkind er forritanlegt vélmenni sem er byggt úr einingum sem innihalda ljós, mótóra og fjarlægðarnema sem er stýrt með snjalltæki. Þá eru einnig til lítil vélmenni eins og Ozobot, allskonar Legó vélmenni, Bláskjár, róbótasett og svo margt fleira skemmtilegt.

Mikilvægt er að fara vel yfir leiðbeiningar með börnunum og útskýra fyrir þeim það sem fyrir augu ber og að sjálfsögðu aðstoða þau eftir þörfum.

Aldursviðmið: Allir

Stærð hóps: Litlir hópar

Undirbúningur: Gott er að kynna sér hvernig vélmenni eru uppbyggð og finna til myndir og myndbönd. Ef hugur er að fá lánuð vélmenni er hægt að gera það hjá Búnaðarbanka Mixtúru. En ef áhugi er fyrir því að búa til vélmenni þarf að finna til föndurdót eða hreint rusl.

Áhöld: Vélmenni, föndurdót eða hreint rusl

Rými: Stórt rými