Leiklistarklúbbur
Á flestum frístundaheimilum er að finna klúbb sem vinnur með leiklistarhæfileika barna. Slíkur klúbbur felur alltaf í sér mikla þekkingarsköpun þar sem börnin læra að tjá tilfinningar og atburði með orðum og leikbragði.
Þegar Leiklistarklúbbur er settur á fót með eflingu máls og læsis í forgrunni er kjörið að vinna að handritsgerð með börnunum þar sem þau geta lagt sitt af mörkum við sögusköpun. Einnig getur verið gaman að vinna með tilbúin handrit. Í Leikritasmiðjunni má auk þess finna handrit að leikritum fyrir börn á öllum skólastigum eftir Þórunni Pálsdóttur.
f
Leiðbeiningar:
Til þess að hefjast handa við Leiklistarklúbb er best að byrja hvern klúbb á skemmtilegum spunaleikjum til þess að koma öllum í gírinn. Á Leikjavefnum má finna margskonar leiki sem efla leikræna tjáningu sem tilvalið er að notast við. Ef unnið er að handritsgerð er best að byrja á því að fá börnin til þess að setjast niður og hefja hugmyndavinnu. Best er að byrja á stuttu verki og bæta þá frekar við ef þörf er á. Þetta á sérstaklega við um yngri hópa. Þar er hægt að ákveða um hvað leikritið á að vera og hvað persónur eiga að koma fram í leikritinu. Þegar sögulínan er tilbúin er hægt að hefjast handa við að skrifa.
Gott er að skipta börnunum í litla hópa og leyfa þeim að skrifa atriðin sem þau koma fram í sjálf með aðstoð frístundastarfsfólks. Þegar öll atriði leikritsins eru tilbúin er hafist handa við að setja þau saman. Stundum getur verið æskilegt að frístundastarfsfólk tengi atriðin og bæti við þar sem þarf til þess að auka flæðið.
Þegar handritið er fullbúið getur hafist samlestur. Þar er hægt að fá börnin til þess að koma sér vel fyrir í rólegu og þægilegu umhverfi þar sem þau lesa línur sínar saman með hinum börnunum. Þegar rennt hefur verið yfir handritið er hægt að hefjast handa við að leika leikritið.
Til þess að brjóta upp þetta skapandi en krefjandi ferli er hægt að huga að búningum og/eða leikmynd. Jafnframt er alltaf gott að notast við fyrrnefnda spuna og tjáningarleiki.
Aldursviðmið: Allir
Stærð hóps: Meðalstórir hópar
Undirbúningur: Ákveða hvort eigi að finna með tilbúið handrit, skrifa handrit eða frjálsan spuna. Prenta út handrit ef við á.
Áhöld: Blöð og pennar eða snjalltæki eftir þörfum
Rými: Stórt og hljóðlátt rými