fristundalaesi@gmail.com

Megináherslur

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Hverjar eru megináherslurnar?


Frístundalæsi byggir á hugmyndafræði reynslunáms með virka þátttöku barna að leiðarljósi. Þá er félagsleg hugsmíðahyggja og lærdómur í gegnum leik einnig leiðarljós í efni Frístundalæsis, þar sem þekkingarsköpun á sér stað í gegnum leik og í samskiptum við aðra.

Reynslunám

Reynslunám er ákveðið ferli þar sem barnið byggir upp þekkingu og færni með þátttöku sinni í starfi frístundaheimilis.

Samkvæmt reynslunámi tileinkar barnið sér skilning og þekkingu með því að framkvæma, vera virkt, prófa, athuga og ígrunda reynsluna.

Áhugahvöt

Á frístundaheimilum er leitast við að nýta áhugamál barnsins til að stuðla að virkri þátttöku þess svo að það öðlist nýja þekkingu og eigi uppbyggilegan frítíma.

Lærdómur í gegnum leik

Leikur með það að leiðarljósi að barnið öðlist nýja þekkingu kallast að „læra í gegnum leik”.

Slíkur leikur er oft byggður á hugmynd eða efniviði frá starfsfólki frístundaheimilis þar sem áhersla er lögð á þekkingarsköpun.

Þar fær leikgleði, áhugi og reynsla barnsins að njóta sín á sama tíma og færni barnsins eykst.

Félagsleg hugsmíðahyggja

Samkvæmt félagslegri hugsmíðahyggju byggist þekking barna á túlkun sem er háð aðstæðum hverju sinni.

Litið er svo á að barn skapi merkingu út frá reynslu sinni á frístundaheimilinu og skapi þar af leiðandi einstaklingsbundna þekkingu.

Þekkingin verður ávallt til í félagslegu samhengi sem er hluti af menningu viðkomandi barns.

Lykilhugtök máls

Hljóðfræði

Fjallar um að beita talfærum rétt og stýra hljóðbylgjum til þess að mynda hljóð og er undirstaða þess að barn geti tjáð sig munnlega.

Setningarfræði

Fjallar um að raða orðum upp á þann veg að þau tjái merkingu.

Málfræði

Málfræði snýst um hvernig börn ná tökum á málfræðireglum tungumáls, svo sem að fallbeygja, setja orð í fleirtölu og tala um eitthvað í þátíð.

Orðaforði

Orðaforði er ákveðinn orðabanki sem barnið hefur aðgang að.

Málnotkun

Málnotkun fjallar um hvernig tungumál er notað í félagslegum aðstæðum.

Hlustunarskilningur

Hlustunarskilningur fjallar um að skilja málið og setja merkingu í orð og setningar í gegnum heyrnina.

Lykilhugtök læsis

Hljóðkerfisvitund

Hljóðkerfisvitund fjallar um vitund á hljóðkerfi tungumálsins sem þann hluta málþroskans sem snýr að læsi.

Lesskilningur

Lesskilningur fjallar um skilning á merkingu orða og setninga þar sem nota þarf rökhugsun og ályktunarhæfni til þess að skýra innihald texta.

Orðaforði

Orðaforði er sá orðabanki sem barnið hefur aðgang að.

Lesfimi

Lesfimi er færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjanda í lestri.

Ritun

Ritun felur í sér umskráningu orða, stafsetningu og miðlun.

Hljóðavitund

Hljóðavitund vísar til þeirrar þekkingar og færni að greina og þekkja hljóð bókstafa og nýta þau til þess að lesa úr táknum þeirra.