fristundalaesi@gmail.com

Vísindalæsi – Forritunarklúbbur

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Forritunarklúbbur

Í klúbbnum fer starfsfólk yfir helstu þætti forritunar með börnum í skemmtilegum leikjum í spjaldtölvum eða fjölbreyttum forritunartækjum.

f

Leiðbeiningar:

Í forritunarklúbb er gott að byrja á að kynna grunnatriðin fyrir börnunum á myndrænan hátt eins og með Scratch, sem er myndrænt forritunarumhverfi. Þá býður smáforritið Box Island upp á spennandi sögur og mörg verkefni sem snúa að forritun sem börn geta leyst. Mikilvægt er að ræða við börnin á meðan á klúbbnum stendur um það sem þau eru að gera og veita þeim aðstoð og leiðbeiningar eftir þörfum.

Hægt er að fá fræðslu hjá margmiðlunarveri Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Mixtúru, um forritun eða fá lánuð ýmis áhugaverð forritunartæki úr Búnaðarbanka þeirra. Til dæmis er liðuga lirfan afar sniðug.

Auk þess er hægt að nota tölvuleikinn Minecraft þar sem börnin þurfa að brjóta og staðsetja blokkir eða kubba. Í leiknum fær sköpunargleði og ímyndunarafl barnanna lausan tauminn. Þá geta þau annað hvort spilað ein eða í hóp og jafnvel hjálpast að við að reisa mannvirki eða fara í ævintýraferðir. 

Undir lok klúbbsins er gott að gefa sér að minnsta kosti 10 mínútur til þess að ræða við börnin um upplifun þeirra af forritun og spyrja til dæmis út í hvað þeim þykir merkilegast við forritun.

Aldursviðmið: Allir

Stærð hóps: Litlir hópar

Undirbúningur: Tilvalið er að fá lánuð forritunartæki hjá Mixtúru og kynna sér þau eða kynna sér smáforritið Box Island

Áhöld: Spjaldtölvur eða önnur forritunartæki

Rými: Hljóðlátt lítið rými


Smáforrit:

Box Island fer yfir helstu þætti forritunar í gegnum spennandi leik. Börnin öðlast þekkingu á ákveðnum grunnþáttum forritunar eins og skilyrði og endurtekningar.