fristundalaesi@gmail.com

Samfélagslæsi – Almennt starf

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Almennt starf



Hugmyndir sem framkvæma má í almennu starfi til eflingar á samfélagslæsi á frístundaheimilinu. Þegar fjallað er um almennt starf er átt við allt það starf sem fer fram á frístundaheimilum að undanskildu skipulögðu klúbbastarfi.

Orð vikunnar á öllum tungumálum

Tilvalið er að fá börn með annað móðurmál en íslensku til þess að velja sér orð vikunnar ef áhugi er fyrir hendi meðal barnanna.

Í kjölfarið er hægt að skrifa orðið upp á öllum þeim tungumálum sem töluð eru á frístundaheimilinu jafnvel með hjálp þýðingarvélarinnar Google Translate.

Börnin fá þá tækifæri til þess að velta fyrir sér fjölbreytileika frístundaheimilisins og öllum tungumálum er gert jafn hátt undir höfði.

Bækur á fleiri tungumálum

Mikilvægt er að styrkja móðurmálskunnáttu barna með annað móðurmál en íslensku.

Bókasöfn borgarinnar bjóða upp á bækur á fjölmörgum tungumálum.

Gott er að hafa það í huga að ef bækur hafa verið þýddar á íslensku eru allar líkur á því að þær hafi verið þýddar á önnur tungumál.

Þessar bækur er líklegast hægt að nálgast á sölusíðum á netinu.

Koma með bók frá landinu sem heimsótt er

Á mörgum vinnustöðum tíðkast að koma með einhvernskonar minjargrip eða sætindi þegar starfsfólk kemur heim eftir að hafa verið erlendis.

Gaman getur verið að koma með áhugaverða barnabók frá staðnum sem heimsóttur hefur verið. Ef tungumál bókarinnar er ekki talað innan frístundaheimilsins er sniðugt að velja litríka og skemmtilega myndskreytta bók eða sögu sem börnin þekkja.

Þannig eykst fjölbreytileiki bókakostsins á frístundaheimilinu og börnin fá tækifæri að kynnast framandi tungumáli og öðlast virðingu fyrir því þó þau skilji ekki endilega alltaf efni bókarinnar.

Áhugaverðir hlekkir