Hvað er Frístundalæsi?
Frístundalæsi er margverðlaunaður hugmyndabanki sem snýr að eflingu máls og læsis barna í gegnum leik á frístundaheimilum.
Hugmyndabankinn er unninn í samstarfi við skóla-og frístundasvið Reykjavíkurborgar og er ætlaður til stuðnings við starfsfólk frístundaheimila landsins.
Í hugmyndabankanum eru tilgreind ólík sóknarfæri sem hægt er að nýta í frístundastarfi til að efla málþroska og lesskilning barna. Hvert og eitt frístundaheimili getur tileinkað sér ólíka hugmynd og lagað að sínum þörfum.
Frístundalæsi hefur verið skipt í þær sjö tegundir læsis sem frístundaheimili vinna hvað mest með að undanskildu hefðbundnu læsi sem tvinnað hefur verið inn í þær.
Þessar tegundir læsis eru; félagslæsi, lista- og menningarlæsi, miðlalæsi, samfélagslæsi, vísindalæsi, náttúru- og umhverfislæsi og heilsulæsi.
Á heimasíðunni er að finna stutta umfjöllun um hverja tegund læsis fyrir sig, hugmyndir sem hægt er að framkvæma í almennu starfi og hugmyndir að klúbbastarfi.
Einnig er sagt frá fyrirmyndarklúbbum sem eru starfræktir í borginni, spennandi þemadögum, uppbyggilegum smáforritum og ítarefni.