fristundalaesi@gmail.com

Leiðbeiningar – Klúbbastarf

Klúbbastarf

Hver læsistegund inniheldur hugmyndir af klúbbastarfi. Með klúbbastarfi er átt við skipulagt starf þar sem börnin velja sér ákveðinn klúbb eða dægrastyttingu sem þau vilja taka sér fyrir hendur á degi hverjum. Í hverri læsistegund eru lagðar til ólíkar hugmyndir að klúbbum sem snúa að tilteknu læsi. Þó hugmyndir séu settar fram skref fyrir skref er kjörið að aðlaga klúbbana eftir áhugasviði starfsfólks og getu og þörfum barnanna. Aldursviðmið

Gefið er til kynna hvaða aldurshóp klúbbarnir höfða mest til. Notast er við hópaskiptinguna; 1. og 2. bekkur, 3. og 4. bekkur og allir. Þegar orðið allir er notað er átt við að klúbburinn henti 1.-4. bekk.Eins og orðið gefur til kynna er hér aðeins átt við viðmið en alls ekki reglu. Frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi þekkir sinn barnahóp best og því þarf að meta hverju sinni hvort klúbburinn henti hópnum út frá áhugasviði, hæfileikum og þroska þeirra.

Stærð hóps

Í hverjum klúbbi er gefið til kynna æskileg stærð barnahópsins. Það eru; litlir hópar, meðalstórir hópar eða stórir hópar. Í litlum hóp eru allt að sjö börn, í meðalstórum hóp eru 8 til 14 börn og í stórum hóp eru 14 börn eða fleiri. Hér eru aðeins tekin fram viðmið um hópastærðir en alls ekki er um reglu að ræða. Frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi þekkir sinn barnahóp best og því þarf að meta hverju sinni hvaða hópastærð hentar. 

Undirbúningur

Fjallað er um þann undirbúning sem höfundar telja æskilegan fyrir hvern klúbb. Fagstarf á frístundaheimilum krefst oft á tíðum þó nokkurns undirbúnings. Þá þarf að kynna sér vel hugmyndir á bakvið klúbbinn og ákveða hvernig ráðlagt sé að setja hann upp og kanna hvernig best sé að koma honum í framkvæmd á hverju frístundaheimili fyrir sig. Hér eru því settar fram ýmsar hugmyndir hvernig best sé að standa að undirbúningi klúbbsins en listinn er alls ekki tæmandi. 


Áhöld

Gefið er til kynna hvaða áhöld og efnivið höfundar telja að þurfi að vera til taks til þess að hægt sé að framkvæma klúbbinn. Listinn er þó alls ekki tæmandi.  

Rými

Upplýsingar um hvernig rými höfundar telja vera hnetugast til þess að hægt sé að framkvæma klúbbinn. Frístundaheimili eru þó jafn ólík og þau eru mörg og þurfa því frístundaleiðbeinendur/ráðgjafar að aðlaga rýmin eftir þörfum.