fristundalaesi@gmail.com

Félagslæsi – Almennt starf

Almennt starf

Veggspjald með myndum sem sýna tilfinningar

Þegar börn koma tilfinningum sínum ekki í orð getur verið gagnlegt að hafa uppi veggspjald sem sýnir svipbrigði sem túlka tilfinningar. Þá geta börn bent á myndina og starfsfólk frístundaheimilisins rætt við þau um hvernig þeim líður, svo sem reið, glöð o.s.frv. Þetta auðveldar börnum að vera læs á tilfinningar sínar og þroska með sér næmni í samskiptum. Hægt er að finna ýmis mismunandi veggspjöld sem sýna tilfinningar á vefnum og valið úr hvað tilfinningar henti best ykkar barnahóp og/eða ykkar frístundaheimili. Einnig er tilvalið að fá börnin til þess að stinga upp á ýmsum mismunandi tilfinningum sem þau þekkja og hafa með á veggspjaldinu.

Áhugaverðir hlekkir:

Tilfinningar eru allskonar

Veggspjald með myndum sem sýna tilfinningar

Sjálfshjálparbók barna

Mikilvægt er að starfsfólk þekki einkenni tilfinninga og sé tilbúið til umræðu um andlega líðan barnanna á frístundaheimilinu. Hægt er að finna og/eða fjárfesta í ýmsum gagnvirkum sjálfshjálparbókum fyrir börn þar sem unnið er með ýmsar erfiðar tilfinningar. Slíkar bækur geta reynst starfsfólki vel til þess að skilja og bregðast við fjölbreyttum tilfinningum barnan. Hvað get ég gert? eru bækur sem vinna með slíkar tilfinningar á íslensku.

Áhugaverðir hlekkir:

Gagnvirk sjálfshjálparbók barna

Hópeflisleikir

Gott er að fara í sérstaka hópleiki með það að markmiði að börnin öðlist færni til þess að verða sterkari einstaklingar, eigi auðveldara með að tengjast hópnum og efla samvinnu. Hópeflisleikir skapa ákveðinn grundvöll til þess að hópurinn kynnist og er tilvalinn vettvangur fyrir frístundaleiðbeinendur/ráðgjafa til þess að kynnast barnahópnum betur. Hægt er að finna marga leiki á Leikjavefnum og funfy.is sem snúa að styrkingu sjálfsmyndar og eflingu félagsfærni.

Áhugaverðir hlekkir:

Leikjavefurinn 

funfy.is


Eineltisfræðsla

Reykjavíkurborg er með stefnu gegn einelti sem allir ættu að vera meðvitaðir um og er því mikilvægt að bjóða börnum frístundaheimilisins upp á fræðslu um einelti, s.s. Vinsamlegt samfélag. Hægt er að hengja eineltishringinn upp á vegg til að hjálpa börnum að átta sig á þeim hlutverkum sem einstaklingar eru í þegar einelti á sér stað. Gott að kynna sér gátlista eineltisáætlana þar sem finna má áætlun um forvarnir, inngrip og eftirfylgd í eineltismálum. Auk þess er starfandi ráðgjafi hjá Reykjavíkurborg sem getur veitt aðstoð við úrlausn eineltismála.

Áhugaverðir hlekkir:

Vinsamlegt samfélag

Eineltishringurinn


Heimspekileg Samverustund

Á frístundaheimilum getur verið tilvalið að taka minni hópa, til dæmis skólabekki eða árgang í heimspekilega samverustund þar sem lagt er áherslu á samskipti og samtal. Æskilegt er að koma sér fyrir á rólegum stað innan frístundaheimilins þar sem öllum getur liðið vel og spjallað um heimspekileg viðfangsefni. Það er hægt að finna ógrynni að heimspekilegum æfingum og verkefnum fyrir börn á vefnum eins og 68 æfingar í heimspeki. Það er bók sem tilvalið er að nýta enda stúfull af frábærum og skemmtilegum æfingum fyrir börnin.

Áhugaverðir hlekkir:

68 æfingar í heimspeki

10 mínútna reglan

Á frístundaheimilum borgarinnar eru mörg börn sem hafa annað móðurmál en íslensku og læra því íslensku sem annað mál í skóla og frístundastarfi. Það er krefjandi að læra nýtt tungumál og getur tekið langan tíma að öðlast viðeigandi færni í íslensku svo börnin öðlist sömu framtíðartækifæri og jafnaldrar þeirra með íslensku sem móðurmál. Aferðafræðin Gefðu 10 er einföld aðferð sem starfsfólk frístundaheimila á auðvelt með að tileinka sér til þess að aðstoða þennan barnahóp. Aðferðin gengur út á að hver og einn starfsmaður gefur sér 10 mínútur á dag til að eiga samtal við föltyngd barn með það að markmiði að auka samtal og samskipti.  Hægt er að nálgast leiðarvísir og veggspjald á vef Reykjavíkurborgar.

Áhugaverðir hlekkir:

Leiðarvísir – Gefðu 10

Veggspjald – Gefðu 10


Félagsfærni og vináttuþjálfun

Jafningjasambönd barna geta haft mikil áhrif á allt þeirra líf og geta sömuleiðis vandræði í þessum samskiptum leitt til ýmissa vandamála síðar á ævinni. Hægt er að nota aðferðir félagsfærni og vináttuþjálfunar til að efla börn til jákvæðra félagslegra samskipta. Þá notar starfsfólk frístundaheimilis tilteknar aðferðir til að kortleggja barnahópinn í heild og skiptir þeim niður í flokkana; miðlungs, vinsæl, hafnað og týnd. Mikilvægt er að starfsfólk greini stöðu barna á frístundaheimilinu eftir þessari skiptingu og reyni að leita leiða til að hjálpa og breyta stöðu þeirra barna sem hafa verið flokkuð sem höfnuð og týnd. Vinátta er afar mikilvæg fyrir börn. Hún kennir félagsfærni, eykur þroska og vellíðan og gefur lífinu gildi. Félagsfærni og vináttufærni er best lærð í gegnum samskipti við aðra og er því frístundaheimili kjörinn vettvangur. Hægt er að finna fjölbreytt efni um vináttuþjálfun á vefnum.

Áhugaverðir hlekkir:

Handbók um einelti og vináttufærni

Kvan

Smáforrit:

Í Let’s be social er hægt að búa til félagsfærnisögur fyrir börn. Þar má finna tilbúnar félagsfærnisögur og leiðbeiningar um hvernig hægt sé að búa til nýjar.