fristundalaesi@gmail.com

Mögulegir samstarfsaðilar

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Samstarfsaðilar og fræðsla



Listi yfir mögulega samstarfsaðila fyrir frístundaheimili sem vinna að eflingu máls og læsis á ólíkan hátt.

Borgarbókasafn

Á bókasöfnum borgarinnar er að finna fjölbreytt úrval bóka. Þar eru bókaverðir tilbúnir að vinna ýmis verkefni með starfsfólki frístundaheimila og taka á móti barnahópum í bókakynningar, ratleiki, sögustundir og fleira skemmtilegt.

Frístundaheimilum stendur einnig til boða að fá lánaða þemakassa fulla af bókum tengdum umbeðnu þema sem og fá að láni rafbækur.

Þar að auki halda bókasöfnin úti samstarfsverkefninu Lestrarvinir ásamt Miðju máls og læsis, sem gengur út á að auka bókaáhuga, lesskilning og íslenskukunnáttu barna af erlendum uppruna.

Leikskólar og grunnskólar

Það hefur reynst bæði hagnýtt og þýðingarmikið að vinna í nánu samstarfi við leikskóla og grunnskóla hverfisins þegar frístundaheimili fer að vinna markvisst að eflingu máls og læsis.

Miðja máls og læsis

Miðja máls og læsis er þekkingarteymi á vegum Reykjavíkurborgar. Teymið fer á vettvang og veitir starfsfólki á frístundaheimilum stuðning, ráðgjöf og fræðslu varðandi mál og læsi í víðum skilningi, sniðið að hverri starfsstöð.

Þar er einnig hægt að nálgast upplýsingar um ýmis smáforrit og spil til málörvunar. Sérstakir brúarsmiðir veita jafnframt leiðsögn vegna barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Mixtúra

Mixtúra er margmiðlunarver skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem býður upp á fjölbreytt úrval af tækjum og búnaði sem frístundaheimili geta fengið að láni.

Einnig er hægt að fá fræðslu hjá þeim og fara á skemmtileg námskeið um allskyns tækninýjungar sem geta nýst í starfi frístundaheimila.

Móðurmálssamtökin

Markmið Móðurmálssamtakanna er að kenna fjöltyngdum börnum þeirra móðurmál, stuðla að þróun móðurmálskennslu og styðja við virkt tvítyngi í samfélaginu.

Samtökin bjóða upp á áhugaverða fræðslu sem snýr að mikilvægi móðurmáls, kostum og áskorunum tvítyngis og fjöltyngis og kennslu barna með annað móðurmál en íslensku.

Orð af orði

Hægt er að óska eftir námskeiðum eða smiðjum sem tengjast kennslufræði Orðs af orði, stökum aðferðum eða almennt um eflingu orðaforða og læsis.

Orð af orði er kennslufræði sem hefur það að markmiði að efla læsi barna gegnum skemmtileg verkefni.

Réttindaskóli UNICEF

Réttindaskóli UNICEF hefur það að markmiði að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Réttindaskóli UNICEF er verkefni sem starfrækt er innan ýmissa skóla og frístundaheimila. Hægt er að óska eftir því að fá kynningu á verkefninu.

Einnig geta frístundaheimili í samstarfi við grunnskóla hverfisins óskað eftir að gerast réttindafrístund á heimasíðu UNICEF.

Skógræktarfélag Reykjavíkur

Skógræktarfélag Reykjavíkur, sem staðsett er í Heiðmörk, býður upp á áhugaverða kynningu fyrir börn og starfsfólk frístundaheimila.

Hægt er að fræðast um ýmislegt fróðlegt, s.s. trjárækt og skógrækt og gildi skóga í náttúrunni.

Einnig tekur skógræktarfélagið við barnahópum í vettvangsferð þar sem hópurinn getur fengið tækifæri til að gróðursetja tré og/eða njóta svæðisins og aðstöðunnar sem þar er í boði.

Umboðsmaður barna

Umboðsmaður barna vinnur að bættum hag barna og stendur vörð um hagsmuni, þarfir og réttindi þeirra.

Hægt er að óska eftir að fá fræðslu um réttindi barna fyrir börn og/eða starfsfólk frístundaheimila.