fristundalaesi@gmail.com

Um okkur

Um okkur

Höfundar

Verkefnið var unnið af Fatou N’dure Baboudóttur og Tinnu Björk Helgadóttur, nemendum á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands í samstarfi við og með stuðningi Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Umsjónarmaður verkefnisins var Margrét S. Björnsdóttir aðjúnkt við Háskóla Íslands. Verkefnið hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna Rannís og var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2019.

Markmið verkefnisins

Markmið verkefnisins var að skoða hvort tækifæri væru til eflingar máls og læsis á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Á grunni rannsóknar var hönnuð og gefin út handbókin Frístundalæsi til stuðnings við starfsfólk frístundaheimila með fjölbreyttum leiðum til að efla læsi barna. Handbókin stendur öllum til boða endurgjaldslaust á vef Reykjavíkurborgar: Frístundalæsi.

Fatou N’dure og Tinna Björk Helgadóttir ásamt Guðna Th. Jóhannesson Forseta íslands og Sunnu Halldórudóttir hönnuði.

ff

Upphaf verkefnis

Höfundar unnu að þróunarverkefni um eflingu máls og læsis frá árinu 2014 til 2015 á frístundaheimilinu Glaðheimum, sem þær ráku saman. Verkefnið var unnið í samstarfi við Langholtsskóla og leiksskólann Sunnuás. Þróunarverkefnið gekk vonum framar og eftir að samstarfinu lauk þá héldu höfundar áfram að vinna með þá þekkingu sem skapaðist í samstarfinu á sínum vinnustað þar til þær létu af störfum. Lokaskýrsluna um þróunar- og samstarfsverkefnið má nálgast hér: Samstarf um mál og læsi alla skólagönguna – lokaskýrsla til Sprotasjóðs

Rannsókn var lögð til grundvallar

Notast var við eigindlegar rannsóknaraðferðir og tekin viðtöl við lestrarsérfræðinga, deildarstjóra frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar og forstöðumenn frístundaheimila. Helstu niðurstöður benda til þess að margskonar tækifæri séu til staðar á frístundaheimilum til eflingar máls og læsis. Færa má rök fyrir því að vettvangurinn sé að mörgu leyti vannýttur til markvissrar eflingar læsis, en gæti verið mikilvægur í Þjóðarátakinu um betra læsi barna. Lokaskýrsla um rannsóknina má finna hér á vef Reykjavíkurborgar: Frístundalæsi: Rannsóknar og þróunarverkefni. Eigindleg rannsókn vegna eflingar máls og læsis á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar og leiðbeiningarhefti fyrir þau


ff

Heimasíða og handbók sem leiðbeiningarit og hugmyndabanki

Höfundar hafa nú í samstarfi við og með stuðningi frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar sett á fót heimsíðuna Frístundalæsi. Heimasíðan byggir á samnefndri handbók og rannsókn þar sem lagt eru til ólíkarleiðir til eflingar máls og læsis fyrir börn sem dvelja á frístundaheimilum. Heimasíðan og handbókin eru hugmyndabankar þar sem meðal annars er hægt að finna tíu einföld atriði sem hvert frístundaheimili getur framkvæmt, margskonar leiki og verkefni fyrir börn og fræðsluefni fyrir starfsfólk.

Kynning á heimasíðu og handbók

Þegar er hafin kynning á verkefninu meðal starfsfólks og stjórnenda frístundaheimila í Reykjavíkurborg, og áform eru um að fara út á land einnig. Von höfunda er að heimasíðan og handbókin geti nýst starfsfólki frístundaheimila til að efla mál og læsi barna og þannig stuðlað að bættum árangri þeirra.