fristundalaesi@reykjavik.is

Náttúru og umhverfislæsi – Þemadagar

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Þemadagar

Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla náttúru og umhverfislæsi. Hægt er að nýta hugmyndinar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.

Skógardagur

Skógar landsins eru fjölbreyttir og fara sífellt stækkandi. Það er alveg einstakt að fara með barnahópa þangað í heimsókn en ekki öll börn vita af þeim né hafa tækifæri til að heimsækja þá. Á skógardeginum mikla er því tilvalið að heimsækja nærliggjandi skógarsvæði og fara með börnin í leiki.

Hægt er að setja sig í samband við skógræktarfélög og fá fræðslu um trjárækt og skógrækt og gildi skóga í náttúrunni sem er afar fróðlegt. Á vef skógrækarfélagsins er einnig hægt að nálgast verkefnabanka þar sem má finna fjölbreytt verkefni sem nýta má í tengslum við skógarferðir.

Gaman getur verið að fara í fjölbreytta leiki með barnahópa í skóginum og er hægt að nálgast hér að neðan nokkra umhverfileiki en einnig er að finna marga skemmtilega hópleiki á leikjasíðum á vefnum.

Þá mætti einnig fara með barnahópinn í vettvangsferð ásamt öðrum frístundaheimilum þar sem þau fá tækifæri til að gróðursetja tré og upplifa svokallað skógarbað.

Þegar farið er í skógarbað er fylgt fimm skrefum, þ.e. sjá tréin og plönturnar, hlusta eftir hljóðunum í kringum sig, finna fyrir jörðinni sem gengið er á, finna ilminn af ferska loftinu og gróðrinum og smakka á berjum og öðrum ætilegum gróðri.

Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má í tengslum við skógardaginn mikla. Þar ber helst að nefna gróðurræktunarklúbb.

Dagur íslenskrar náttúru

Náttúran er viðkvæm, röskun á landi er áberandi og eru spjöll á grónu landi lengi að jafna sig. Forsenda þess að börn virði náttúruna og vilji vernda hana þá verða þau að fá tækifæri til að kynnast henni og skilja mikilvægi hennar.

Þann 16.september ár hvert er sjónum beint að hinni einstöku náttúru Íslands, gögnum hennar og gæðum. Gaman væri ef að frístundaheimili myndu taka þátt í þessum degi sem Stjórnarráð Íslands hvetur til að hafður sé í huga í allri starfsemi.

Það er hægt að vinna að ýmsum verkefnum sem stuðla að aukinni þekkingu á íslenskri náttúru. Hægt er að finna ýmis spennandi verkefni í verkefnakistu Skóla á grænni grein og á vef Grænfánans. Einnig er að finna ýmis skemmtileg verkefni í bókinni Í fjörunni sem hægt er að nota í tengslum við fjöruferðir.

Þá væri til dæmis hægt að taka þátt í árlegu átaki í Birkifræsöfnuninni sem hefst 16.september. En þá er fólk hvatt til að leggja birkiskógum landsins lið við að breiðast út á ný, annað hvort með því að safna fræi og senda inn í söfnunina eða með því að dreifa á eigin spýtur því fræi sem sáð er.

Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má í tengslum við íslenska náttúru. Þar ber helst að nefna gróðurræktunarklúbb, þar sem tilvalið er leggja áherslu á íslenska flóru og plokkunarklúbb þar sem lögð er áhersla á umhverfismál.

Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. samstæðuspil með náttúruperlum Íslands.

Útinámsdagur

Með útivist opnast fjölbreytt tækifæri fyrir börn til þess að tengjast náttúrunni og efla bæði líkamlega og andlega heilsu.

Mikilvægt er að öll börn fái tækifæri til að stunda útivist með þátttöku í skipulögðu frístundastarfi og að inngilding sé leiðarljós við skipulag starfsins. Gaman getur verið að setja saman sérstakan útinámsdag á frístundaheimilinu þar sem lögð er áhersla á að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Það er hægt að vinna að ýmsum fjölbreyttum útinámsverkefnum. Hægt er að nálgast verkefni á vef Frístundalæsis og í verkefnakistu Skóla á grænni grein.

Einnig geta frístundaheimili í Reykjavík nýtt sér skemmtilega og fræðandi dagskrá sem Miðstöð útivistar og útináms býður upp. Dagskráin er tileinkuð skóla- og frístundastarfi í Reykjavík undir nafninu „Úti er ævintýri“. Dagskráin er ókeypis og er liður í því að styðja frístundaheimili Reykjavíkur í að tileinka sér kosti nærumhverfis til náms.

Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má við útinám. Þar ber helst að nefna útieldunarklúbb, útinámsklúbb og plokkaraklúbb.

Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. útibingó og útifatnað.