Þemadagar
Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla miðlalæsi. Hægt er að nýta hugmyndinar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.
Bókasafnsdagur
Gaman getur verið að nýta heila daga frístundaheimilisins til þess að heimsækja bókasöfn í nærumhverfi. Í flestum bæjarfélögum er að finna bókasöfn sem hægt er að heimsækja með frístundahópa. Einnig er hægt að nýta sér skólabókasöfn grunnskólanna.
Á Borgarbókasafni Reykjavíkur er frístundahópum boðið upp á safnafræðslu og sögustundir. Einnig er hægt að fá bókakoffort þar sem frístundaheimili geta fengið lánaðar bækur eða fá sögubílinn Æring í heimsókn.
Skemmtilegt getur verið fyrir börnin að spjalla saman um bækurnar sem þau lesa eða eru lesnar fyrir þau og geta þau jafnvel haft stjörnugjöf líkt og gert er í Krakkakiljunni. Þá mætti hengja upp bókaorm á frístundaheimilið sem lengist eftir því sem fleiri bækur eru lesnar.
Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má til að auka áhuga barna á bókum og yndislestri. Hægt er að fara í reglulegar heimsóknir á bókasöfn í bókasafnsklúbb eða vinna að skemmtilegri bók í bókagerðarklúbb.
Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. bókaorm.
Stuttmyndadagur
Það getur verið gaman að vinna að ýmsum kvikmyndaverkefnum á frístundaheimilum og geta heilir dagar hentað vel í slík verkefni.
Þá er hægt að skipta börnum í hóp þar sem hver og einn hópur vinnur að stuttmynd fyrri part dags. Í lok dagsins er hægt að halda litla kvikmyndahátíð og horfa á afrakstur dagsins.
Tilvalið er að senda stuttmyndirnar sem unnar eru á frístundaheimilinu inn í stuttmyndakeppni Rúv.
Einnig er hægt að fá lánaðar myndir frá öðrum frístundaheimilum hverfisins og ef mikil stemmning er fyrir kvikmyndagerð er jafnvel hægt að slá upp einni heljarinnar kvikmyndasýningu frístundamiðstöðvarinnar og leigja bíósal.
Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má þegar unnið er að stuttmyndagerð. Þar ber helst að nefna kvikmyndagerðaklúbb, klippimyndaklúbb og rithöfundaklúbb.
Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. fjölmiðlaleiðbeiningar.
Söguheimadagur
Barnabókmenntir eru órjúfanlegur þáttur í barnamenningu á Íslandi og eru til ótal sögupersónur og söguheimar sem spennandi getur verið að vinna með.
Við þekkjum flest ræningjana í Kardemommubænum, Ronju í Matthíasarskógi og dýrin í Hálsaskógi og þau ævintýri sem þessar litríku persónur lenda í. Gaman er að kynna börnin á frístundaheimilinu fyrir barnabókmenntum og gera þeim hátt undir höfði.
Hægt er að velja sér einn skemmtilegan söguheim og er þá tilvalið að setja upp skemmtilegar stöðvar sem tengjast honum. Til að mynda er hægt að útbúa áhugaverð föndurverkefni með börnunum, fara skemmtilega hópleiki eða matreiða eitthvað sem tengist umræddum söguheimi, s.s. ratleikur ræningjanna í Kardemommubæ, Skógarferð Ronju Ræningjadótturm eða piparkökubakstur dýranna í Hálsaskógi.
Á Frístundaheimilinu Klapparholti er unnið mikið með Harry Potter og galdraheiminn þar sem ævintýra galdrastráksins og félaga fara fram. Börnin fá tækifæri til þess að vera valin í heimavist af hattinum góða, blanda galdraseyði og spila hlutverkaleik meðal annars.
Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má til að auka áhuga barna söguheimum og barnabókmenntum. Hægt er að fara í reglulegar heimsóknir á bókasöfn í bókasafnsklúbb eða vinna að skemmtilegri bók í tengslum við söguheiminn í bókagerðarklúbb.
Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. bókaorm.