fristundalaesi@reykjavik.is

Samfélagslæsi – Þemadagar

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Þemadagar


Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla samfélagslæsi. Hægt er að nýta hugmyndinar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.

Barnalýðræðisdagur

Ýmsar skemmtilegar leiðir eru til þess að kynna mannréttindi og borgaralegar skyldur fyrir börnunum, s.s. með barnalýðræðisdegi. Þá eru sköpuð tækifæri til að börnin geti átt þátt í ákvarðanatöku hverju sinni og geta þau þannig haft áhrif á málefni sem snerta þau.

Barnalýðræðisdagur felur í sér valdeflingu barna og upplifa þau virðingu af hálfu fullorðinna þegar skoðanir þeirra eru virtar og hæfni þeirra til þess að taka ákvarðanir.
Frístundaheimilið Brosbær heldur úti mjög öflugu barnalýðræði s.s. með reglulegum barnafundum, barnaráðsfundum og barnaráðdögum. Þetta gefur börnunum tækifæri til að móta starfsemi frístundaheimilisins enn frekar. Hægt er að kynna sér barnalýðræði í Brosbæ í þessu kynningarmyndbandi.

Þá mætti fara alveg gjörólíka leið við að kynna barnalýðræði og halda svokallaðan einræðisherradag eins og frístundaheimilið Selið gerir einu sinni á ári. Þá eru forstöðumennirnir einræðisherrar en börn og starfsmenn almennir borgarar. Börnin skipuleggja sig síðan með aðstoð starfsfólks og setja á fót mótmæli til þess að breyta stjórnarfyrirkomulaginu. Hægt er að kynna sér einræðisherradaginn í Selinu í þessu myndbandi.

Með virku barnalýðræði á frístundaheimili er börnum gefið tækifæri á að koma skoðunum sínum og hugsunum á framfæri undir handleiðslu frístundaleiðbeinenda. Nálgast má frekari hugmyndir til að styðja við barnalýðræði hjá Unicef.

Hinsegin dagur

Mikilvægt er að starfsfólk frístundaheimila leggi sitt að mörkum til að skapa öruggt umhverfi svo að öll upplifi sig örugg í samfélaginu og líði vel. Hægt er að halda sérstakan hinsegin dag á frístundaheimilinu þar sem fjölbreytileikanum er fagnað, hvatt til fordómaleysis og víðsýni.

Á frístundaheimilum í Árborg er árlega haldin hinsegin vika. Þar er meðal annars lögð áhersla á að auka fræðslu, skapa umræður og sýnileika á frístundaheimilinu. Starfsfólk og börn eru hvött til að klæðast litríkum fatnaði á þessa viku og frístundaheimilið er skreytt í regnboganslitum. Börnin fá tækifæri á að föndra og baka ýmislegt í tengslum við vikuna. Einnig eru lesnar bækur sem fagna fjölbreytileikanum eins og bókin Vertu þú þar sem fjallað er um hversu einstök við öll erum á okkar hátt.

Til er fjölbreytt efni sem nýst getur frístundaheimilum. Samtökin ‘78 reka vefsíðuna Hinsegin frá Ö til A um hinsegin málefni og einnig er hægt að óska eftir frekari fræðslu frá samtökunum. Samtökin ’78 hafa einnig gefið út nýtt fræðsluefni og leiðbeiningar fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi með stuðningi mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Þá mætti einnig kynna sér Hinseginvottun Samtakanna ‘78 og Regnbogavottun Reykjavíkurborgar, en markmið þeirra er m.a. að koma í veg fyrir mismunun í garð hinsegin fólks, skapa starfsumhverfi sem er hinseginvænt og tryggja að þjónusta sem borgin veitir sé hinseginvæn.

Barnasáttmáladagur

Æskilegt er að börn viti hvað Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna er og hvernig Sáttmálinn vinnur að því að tryggja réttindi þeirra og annarra barna út um allan heim. Tilvalið er að hafa sérstakan dag tileinkaðan Sáttmálanum.

Hægt er að fara margar ólíkar leiðir að því að kynna Sáttmálann fyrir börnunum en mörg frístundaheimili á Íslandi hafa fengið viðurkenningu frá UNICEF og eru Réttindafrístund UNICEF. Réttindaskóli og -frístund UNICEF hefur það markmið að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi.

Lilja Marta Jökulsdóttir, forstöðukona í frístundaheimilinu Dalheimum vann sérsniðna handbók fyrir frístundaleiðbeinendur sem er tilvalið að nýta þegar kynna á Barnasáttmálann fyrir börnunum. Á vefsíðu Réttindafrístundar UNICEF er hægt að nálgast handbókina og verkefni sem eru hagnýt fyrir frístundaheimili.