Brúarklúbbur
Miklar breytingar geta orðið í lífi barna þegar þau ljúka 4.bekk en þá hætta þau á frístundaheimilum og byrja í félagsmiðstöðvum. Á þessum tímamótum getur því verið gott fyrir börnin að hafa fengið smá innsýn af starfi félagsmiðstöðva í Brúarklúbb. Þar gefst þeim tækifæri á að kynnast starfsfólki félagsmiðstöðva, þeim börnum sem eru í 5.bekk, fara í skemmtilega leiki, fjölbreyttar ferðir og ýmislegt fleira.
fff
Leiðbeiningar:
Í upphafi er nauðsynlegt að hafa sett sig í samband við starfsfólk félagsmiðstöðvar sama skóla og frístundaheimilið stendur við og kanna hvort áhugi sé fyrir Brúarklúbb. Þá er hægt að setja saman skipulag yfir skólaárið og ákveða hversu oft klúbburinn verður haldinn og hversu margir geta tekið þátt hverju sinni. Einnig er gaman að bjóða börnum úr 5.bekk að taka þátt í klúbbnum.
Gott er að byrja á því að ræða við börnin um væntingar þeirra til klúbbsins og kanna hvort þau séu með einhverjar óskir, sem reynt verður eftir bestu getu að taka tillit til við skipulagningu klúbbsins.
Gaman er að fara í allskonar fjölbreyttar ferðir með barnahópinn og fara að sjálfsögðu reglulega í heimsókn í félagsmiðstöðina. Þar sem börnin geta tekið þátt að hluta til í starfi félagsmiðstöðvarinnar, farið í skemmtilega leiki við börnin í 5.bekk, spilað flóknari spil, föndrað ýmislegt og unnið með meira krefjandi efnivið.
Í lok hvers Brúarklúbbs er mikilvægt að gefa sér 10 mínútur til þess að ræða við börnin, spjalla um klúbbinn og jafnvel ræða við þau um líðan þeirra gagnvart komandi tímamótum.
Aldursviðmið: 4. bekkur
Stærð hóps: Litlir eða meðalstórir hópar
Undirbúningur: Mikilvægt er að setja sig í samband við starfsfólk félagsmiðstöðva og gera gróft skipulag fyrir skólaárið
Áhöld: Ólíkur efniviður í samræmi við skipulag
Rými: Ólík rými