Jógaklúbbur
Frístundajóga er ekki nýtt af nálinni og hafa börnin tekið þessum klúbbum vel. Oft er mannauðurinn nýttur og einhver sem þekkir til fenginn til að fara í jóga með börnunum.
Leiðbeiningar:
Í upphafi Jógaklúbbsins er gott að byrja á því að minnka ljósin og spila rólega tónlist. Því næst fá allir sína dýnu og leggjast á þær í um það bil 5 mínútur.
Síðan er farið í fjölbreyttar æfingar og teygjur með börnunum. Gott er að sýna þeim hvernig hver æfing er og ganga síðan á milli barna og aðstoða þau. Einnig er hægt að hafa hangandi uppi myndir af helstu teygjunum og eða æfingum.
Undir lokin er aftur tekin slökun þar sem börnin liggja á dýnunum sínum og þau hvött til þess að segja að minnsta kosti einn jákvæðan hlut við sjálfan sig. Fallegt er að enda jógaklúbbinn á því að frístundaleiðbeinandinn/ráðgjafinn segi við börnin ,,Það góða í mér mætir því góða í þér”.
Þá eru einnig til fjölbreytt smáforrit þar sem hægt er að finna skemmtilegar æfingar sem börnin ráða við. Smáforritið Super Stretch getur verið gott að hafa til hliðsjónar í gegnum fjölbreyttar jógaæfingar, öndunaræfingar og slökun. Einnig er hægt að fara með börnunum í dýrajóga, þar sem að þau beygja sig og sveigja eins og dýr við ljúfa tónlist.
Aldursviðmið: Allir
Stærð hóps: Litlir eða meðalstórir hópar
Undirbúningur: Gott er að hafa útprentaðar myndir af jógaæfingum. Þá þarf að ákveða þær æfingar og teygjur sem verða gerðar í klúbbnum og í hvaða röð þær eru.
Áhöld: Jógadýnur og útvarp. Snjalltæki eftir þörfum.
Rými: Stórt hljóðlátt rými
Áhugaverðir hlekkir:
Smáforrit:
Super Strech er jóga smáforrit sem leiðbeinir starfsfólki og börnum í gegnum fjölbreyttar æfingar, öndunaræfingar og slökun.