fristundalaesi@reykjavik.is

Félagslæsi – Þemadagar

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Þemadagar



Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla félagslæsi. Hægt er að nýta hugmyndirnar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.

Móttökudagur

Mikilvægt er að taka vel á móti öllum nýjum börnum á frístundaheimilinu. Tilvalið er að nýta fyrstu daga eða vikur skólaársins til þess að leggja áherslu á móttöku barna og kynningu á starfsemi frístundaheimilisins. Hægt er að nýta fjölbreyttar aðferðir til þess að tryggja sem bestu inngildingu nýrra barna á frístundaheimilið.


Á frístundaheimilinu Brosbæ er lagt mikið upp úr móttöku nýrra barna og nýta þau til að mynda lukkudýrið Brosa til að auka vellíðan og öryggi þeirra. Brosbær skipuleggur leiksskólaheimsóknir fyrir börn sem eru á elstu deildum leikskóla í skólahverfinu. Í þessum heimsóknum eru börnin kynnt fyrir Brosa og hans helstu hlutverkum í Brosbæ. Þegar þessi börn hefja grunnuskólagöngu og byrja á frístundaheimilinu þekkja þau Brosa, en hann er að finna á mörgum stöðum um allt frístundaheimilið. Þetta veitir börnum ákveðið tilfinningalegt öryggi á þessum stóru tímamótum.


Einnig getur verið gaman fyrir eldri börn frístundaheimilisins að koma að móttöku nýrra barna. Það er til dæmis hægt að fá börn sem fyrir eru á frístundaheimilinu til liðs við sig til að kynna frístundaheimilið. Þá myndu þau fá það hlutverk að sýna nýju börnunum rými frístundaheimilisins og kynna starfsemina í gegnum hringekju, smiðjur og klúbbastarf.


Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má þegar unnið er að móttöku barna. Hægt er að nýta samveruklúbb til þess að vinna að móttöku barna og þá er spilaklúbbur einnig hagnýtur í hópeflisvinnu með barnahópnum. Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. kveðjur á fjölbreyttum tungumálum.

Dagur vináttunar

Þrátt fyrir að haldið sé upp á alþjóðlegan dag vináttunar þann 30. júlí ár hvert, er vel hægt að halda upp á dag vináttunnar hvenær sem er innan frístundaheimilisins.


Tilvalið er að setja upp skemmtilegar stöðvar sem tengjast vináttu á einn eða annan hátt eins og til dæmis vinabandagerð, félagsfærnisögustund, hópeflisleikir og sameiginleg listsköpun.


Þegar kemur að hópaskiptingu barnanna er gott að raða börnum þannig saman í hóp að þau fái að kynnast einstaklingum sem starfsfólk frístundaheimilsins telja að geti myndað æskileg félagstengsl. Þetta á sérstaklega við börn sem standa höllum fæti félagslega.


Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má þegar unnið er að vinnáttufærni. Samveruklúbbur og stuðboltaklúbbur snúa að ákveðinni vináttuþjálfun og þá er spilaklúbbur einnig hagnýtur í hópeflisvinnu með barnahópinn.


Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. samstæðuspil með tilfinningum og tilfinningaveggspjald.

Dagur gegn einelti

Dagurinn 8.nóvember ár hvert er tileinkaður baráttunni gegn einelti. Einelti getur haft slæmar afleiðingar í för með sér bæði andlega og líkamlega fyrir þolendur og fjölskyldur þeirra. En oft er það hinn þögli meirihluti sem lætur eineltið viðgangast því fáir sýna ábyrgð og bregðast við.


Á þessum degi eru jákvæð samskipti í fyrirrúmi og starfsfólk og börn hvött til að taka höndum saman og standa gegn einelti og slæmum samskiptum.


Nauðsynlegt er að miðla góðum lífsgildum til barnanna og ræða reglulega um einelti og afleiðingar þess. Þegar börn eru þjálfuð í að vera saman í leik og starfi þar sem mannréttindi, lýðræði og jafnrétti eru höfð að leiðarljósi getur það veitt góða forvörn þar sem slæm samskipti ná síður að skjóta rótum.


Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má á til þess efla forvarnir gegn einelti. Svipbrigðaklúbbur getur verið kjörið verkfæri við slíka vinnu og þá er hlutverkaleikjaklúbbur hagnýtur þegar unnið er að hópefli með börnunum.


Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. tilfinningaveggspjald og samstæðuspil með tilfinningum.