Útieldunarklúbbur
Mörg frístundaheimili nýta útieldunarsvæði á lóðinni til að bjóða upp á útieldunarklúbb þar sem má kveikja lítinn varðeld. Börnin geta hlýjað sér, poppað popp, bakað brauð, útbúið kakó og margt fleira skemmtilegt.
f
Leiðbeiningar:
Mikilvægt er að frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi kynni sér útieldun og hafi með sér viðeigandi búnað hverju sinni. Þá verður hann að ræða við börnin um það hvernig þau eigi að umgangast varðeldinn og svæðið í kring.
Því næst sýnir frístundaleiðbeinandinn/ráðgjafinn börnunum hvernig þau geta eldað ákveðna hluti yfir varðeldi, eins og fisk í álpappír, egg í kartöflu eða deig á spýtu. Þegar eldað er deig á spýtu er byrjað að finna góðar spýtur sem eru nógu langar og síðan vafið deigi utan um spýtuna. Spýtunni er haldið í hæfilegri hæð yfir varðeldinum og er henni snúið þar til deigið hefur bakast í gegn og mega þá börnin smakka. Að því loknu geta þau sjálf fengið að prufa útieldunina og getur frístundaleiðbeinandinn/ráðgjafinn aðstoðað þau eftir þörfum.
Þá getur verið gott að fara í skemmtilega leiki með börnin á meðan beðið er eftir veigunum. Umhverfisstafaspil er leikur sem mörg af frístundaheimilum Miðbergs fara í. Þar notar frístundaleiðbeinandi/ráðgjafi stóran dúk þar sem stafrófið er merkt inn á. Farið er með dúkinn út og börnin hvött til þess að finna eitthvað sem byrjar á tilteknum staf. Reglurnar eru frekar frjálslegar og er til dæmis fundið sóley fyrir stafinn S eða prik fyrir stafinn P. Þá mætti einnig nota umhverfisstafaspilið sem hluta af ratleik eða þrautaleik. Fleiri leiki má finna á Leikjavefnum.
Gaman er að efla mál og læsi barnanna enn frekar með því að nota stundina við útieldunarsvæðið til að lesa góða sögu fyrir þau, ræða um umhverfið og náttúruna og mikilvægi þess að bera virðingu fyrir henni eða syngja saman.
Aldursviðmið: Allir
Stærð hóps: Litlir hópar
Undirbúningur: Æskilegt er að kynna sér útieldun, finna til það sem þarf í hvert skipti eftir því hvað á að elda og velja góða skemmtilega bók fyrir börnin.
Áhöld: Útieldunarsvæði, bók og matur sem á að elda, ásamt matarföngum
Rými: Útieldunarsvæði