fristundalaesi@reykjavik.is

Vísindalæsi – Þemadagar

Efling máls og læsis á frístundaheimilum

Þemadagar

Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla vísindalæsi. Hægt er að nýta hugmyndinar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.

Tæknidagur

Tæknin í dag er í stöðugri þróun, hvort sem um ræðir smáforrit eða tól og tæki þá er alltaf eitthvað nýtt á boðstólunum. Gaman getur verið fyrir börnin á frístundaheimilinu að kynnast hinum ýmsu tækjum og forritum.

Þá væri hægt að halda tæknidag þar sem börnin eru annað hvort kynnt fyrir ýmsum tækninýjungum eða þau kynna aðra fyrir þeim verkefnum sem þau hafa unnið að með aðstoð tækninnar.

Á tæknideginum mætti sýna framkvæma áhugaverðar tilraunir, bjóða upp á fjölbreytta vísindaklúbba, kynna skemmtilegar uppfinningar eða fjalla um hvernig tæknin er nýtt á uppbyggilegan hátt á frístundaheimilinu meðal annars til þess að efla mál og læsi barna. Hægt er að skipta rýmum frístundaheimilisins í ólíkar stöðvar þar sem mismunandi verkefni og verkfæri eru kynnt á hverri stöð.

Mixtúra býður frístundaheimilum Reykjavíkurborgar upp á stuðning og ráðgjöf við innleiðingu á stafrænni tækni og skapandi vinnu, stuðlar að samstarfi við háskóla um starfsþróun og veitir stuðning við þróun og nýsköpun. Hægt er að óska eftir fræðslu, vinnustofum og menntabúðum fyrir stærri og minni hópa án endurgjalds. Einnig er hægt að fá ýmis spennandi verkefni, tæki og tól að láni í Búnaðarbanka Mixtúru.

Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má þegar unnið er að tæknideginum. Þar ber helst að nefna spurningaklúbb, vélmennaklúbb, forritunarklúbb, tilraunaklúbb og tæknilegóklúbb.

Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. tilraunabók, uppfinning mánaðarins og samstæðuspil með stjörnumerkjum.

Fjármálalæsisdagur

Notkun reiðufjár til að greiða fyrir vörur og þjónustu fer sífellt minnkandi og því færri tækifæri fyrir börn til að handleika peninga og flóknara að skilja virði þeirra.

Kjörið væri að hafa fjármálalæsisdag á frístundaheimilinu með það að markmiði að börnin átti sig á peningum, notkun og virði þeirra og skilji þá helst muninn á því sem þau þarfnast og því sem þau langar í. Þá mætti einnig útskýra fyrir þeim hvernig þau geta sparað og hvernig hægt sé að nota sparnaðinn. Hægt er að fara ólíkar leiðir til að efla fjármálalæsi hjá börnum, s.s. með hlutverkaleik eða spilum.

Á frístundaheimilinu Glaðheimum læra börnin um grundvallaratriði í fjármálum í búðaleik þar sem þau fá útprentaða peninga og verðskrá yfir vörur sem þau geta keypt í búðinni. Starfsfólk ber ábyrgð á peningunum og að úthluta þeim og hangir uppi veggspjald með útskýringum til stuðnings. Einnig er hægt að fara í fræðandi leiki með útprentuðu peningana.

Mikilvægt er að börnin viti að peningar eru ekki allt en að fjárhagslegt öryggi sé mikilvægt. Því peningar heimsins kaupa ekki það sem er mikilvægast í lífinu. Því mætti enda fjármálalæsisdaginn á að telja upp fimm hluti sem kosta ekki neitt.

Stærðfræðidagur

Fróðlegt getur verið að vekja börn til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu. Það mætti gera með því að halda upp á alþjóðlegan dag stærðfræðinnar 14.mars ár hvert.

Þá er hægt að fara með börnin í allskonar stærðfræðispil, spurningaleiki, sudoku og þrautaleiki á þessum frábæra degi. Finna má marga skemmtilega stærðfræðileiki og spil á Stærðfræði sarpinum eða Stærðfræðistofunni.

Einnig getur verið gott að hafa tölur sýnilegar upp á vegg til að auðvelda börnum að þekkja þær. Hægt er að lita tölustafina, perla þá, föndra eða jafnvel kubba þá.