Þemadagar
Tvær hugmyndir af þemadögum sem efla lista og menningarlæsi. Hægt er að nýta hugmyndinar af þemadögum á heilum dögum á frístundaheimilum vegna skólafrís og þegar settir eru upp ákveðnir þemadagar eða þemavikur.
Safnadagur
Til þess að skilja umhverfi okkar sem best er mikilvægt að vera læs á menningararf og skilja mikilvægi þess að varðveita, miðla og rannsaka hann. Tilvalið getur verið að nýta heila daga á frístundaheimilum til þess að heimsækja söfn og listaverk í nærumhverfi.
Það er til fjölbreytt úrval af skemmtilegum söfnum víðsvegar á landinu sem hægt er að setja sig í samband við til að fá fróðlega kynningu fyrir barnahópinn.
Borgarsögusafn Reykjavíkur vinnur að eflingu safnalæsis barna á frístundaheimilum. Þar sem frístundaheimilum landsins stendur til boða að heimsækja alla sýningarstaði Borgarsögusafns endurgjaldslaust en sýningastaðirnir eru Árbæjarsafn, Sjóminjasafn, Landnámssýninguna, Ljósmyndasafn og Viðey.
Á öllum sýningarstöðum gefst börnum tækifæri til að kynnast sögu og menningu Reykjavíkur á fjölbreyttan og lifandi hátt en einnig hafa ákveðnir sýningastaðir útbúið sérsniðin verkefni fyrir frístundaheimili.
Á Árbæjarsafni hefur verið útbúinn sérstakur safnalæsis orðaleikur fyrir frístundaheimili þar sem börn geta fræðst um nöfn og tilgang nokkurra hluta á safninu. Hægt er að nálgast leikinn í gegnum QR kóða.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur býður frístundaheimilum að koma með barnahóp í heimsókn þar sem safnkennari tekur á móti hópnum. Heimsóknin felst í umræðum og léttum leik inni í sýningarsal safnsins um leið og ljósmyndasýning safnsins er skoðuð.
Minjasafn Austurlands hefur útbúið skemmtilegt námsefni sem stuðningur við barnahópa sem heimsækja safnið. Þó er hægt að nýta efnið þó frístundaheimilið eigi ekki heimangengt á safnið. Meðal verkefna sem boðið er upp á er samstæðuspil um þorramat og verkefnablöð sem fjalla um íslensku jólasveinana.
Barnamenningardagur
Barnamenningarhátíðir eru haldnar viðvegar um landið í apríl ár hvert og hafa frístundaheimili landsins verið dugleg að taka þátt á ýmsan hátt.
Fjölmörg verk sem sýnd eru á hátíðinni eru búin til á frístundaheimilum. Gaman getur verið að vinna að verkefni fyrir hátíðina á heilum dögum eða á þemadögum. Verk sýningarinnar hafa verið á ýmsum toga og því um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan taum og skapa eitthvað saman.
Hægt er að vinna að skemmtilegum listaverkefnum og setja upp listasýningu á frístundaheimilinu með það að markmiði að gera barnamenningu hátt undir höfði.
Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má til þess að vinna að eflingu barnamenningar. Hægt er að vinna að ýmsum tónlistarverkefnum í tónlistarklúbb og söngklúbb. Þá getur leiklistaklúbbur einnig reynst hagnýtur þegar unnið er að listsköpun og hópefli með börnum.
Einnig er hægt að styðjast við hagnýt verkfæri í verkfærakistunni, s.s. listamaður og listabarn mánaðarins.
Leiksýningardagur
Það getur verið gaman að setja upp leiksýningu á frístundaheimilinu. Þar geta börn fengið tækifæri til að læra að tjá tilfinningar og atburði með orðum og leikbragði. Hægt er að semja leikritið í samvinnu við börnin eða vinna eftir ákveðinni sögu.
Tilvalið er að setja upp skemmtilegar stöðvar þar sem unnið er að ólíkum verkefnum sem snúa að því að setja upp spennandi leiksýningu. Hægt er að vinna að handriti, leiklist, tónlist, búningum og leikmynd.
Gaman getur verið að bjóða öðrum börnum á frístundaheimilinu að sjá leikskýninguna. Þá er stillt upp sætum fyrir áhorfendur og útbúnir miðar sem dreift er til áhugasamra. Jafnframt eru margir foreldrar og forráðamenn áhugasamir og gæti þótt gaman að fá boð um leiksýningu hvort sem leikritið er sýnt í lok dags eða sérstakur leiksýningadagur sé haldinn formlega.
Einnig er hægt að fara í heimsókn í leikhús með börnin á frístundaheimilinu og kynna þau fyrir starfseminni þar. Þar væri til dæmis hægt að sjá brot úr sýningu, skoða búningaherbergið, leikmuni og förðunarherbergið og jafnvel spjalla við leikara.
Hér á heimasíðunni er að finna fjölbreytt efni sem nýta má þegar unnið er að uppsetningu leiksýningar. Þar ber helst að nefna leiklistarklúbb, söngklúbb og tónlistarklúbb.